Miklir fyrirvarar í samningnum

Skrifað undir kjarasamninga á sjöunda tímanum í kvöld.
Skrifað undir kjarasamninga á sjöunda tímanum í kvöld. mbl.is/Ómar

Miklir fyrirvarar eru settir í nýjum aðalkjarsamningi Samtaka atvinnilífsins og Alþýðusambands Íslands, sem skrifað var undir nú undir kvöld. Mun sérstök forsendunefnd, skipuð tveimur fulltrúum frá hvorum aðila, taka þegar til starfa.

Til þess að samningurinn taki gildi þann 22. júní þurfa þær stjórnvaldsákvarðanir og lagabreytingar, sem heitið er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að hafa náð fram að ganga fyrir þann tíma.

Í byrjun janúar 2012 skal nefndin fjalla sérstaklega um forsendur samningsins fyrir tímabilið 1. mars 2011 til 31. desember 2011. Samningurinn heldur gildi sínu til 31. janúar 2014 hafi forsendur staðist.

Í byrjun janúar 2013 skal nefndin fjalla sérstaklega um forsendur samningsins fyrir tímabilið 1. febrúar 2012 til 31. desember 2012. Samningurinn heldur gildi sínu til 31. janúar 2014 hafi forsendur staðist.

Forsendur samningsins eru:

  1. Kaupmáttur launa hafi aukist á tímabilinu desember 2010 – desember 2011 og á tímabilinu desember 2011 - desember 2012 samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.
  2. Verðlag haldist stöðugt á samningstímanum og að verðbólga verði innan við 2,5% í desember 2012 m.v. sl. 12 mánuði.
  3. Að gengi krónunnar styrkist marktækt frá gildistöku samningsins til loka árs 2011 og að gengisvísitala íslensku krónunnar verði innan við gildið 190 í desember 2012, miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands.
  4. Að stjórnvöld hafi staðið við gefin fyrirheit í efnahags-, atvinnu-, og félagsmálum, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamning þennan.

Fari svo að ofangreindar forsendur standist ekki skal kalla saman fund samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA sem leita skulu samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiða samningsins, treysta forsendur hans og vinna að því að hann haldi gildi sínu.

Náist samkomulag um viðbrögð vegna endurskoðunarinnar 2012 þá heldur samningurinn gildi til loka janúar 2014. Náist samkomulag um viðbrögð vegna endurskoðunarinnar 2013 þá heldur samningurinn gildi til loka janúar 2014.

Nú næst ekki samkomulag og skal þá sá ofangreindra aðila, sem ekki vill að samningurinn haldi gildi sínu, skýra frá þeirri ákvörðun og rökstyðja hana. Fellur samningurinn þá úr gildi frá lokum janúar 2012 en frá lokum janúar 2013 vegna endurskoðunarinnar 2013.

Kjarasamningurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert