Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir við Dow Jones fréttaveituna, að Íslendingar séu sennilega betur staddir utan við Evrópusambandið en innan þess því aðild að sambandinu gæti skaðað skaðað íslenskan sjávarútveg.
„Ég er enn fullur efasemda þegar kemur að því að leggja mat á það hvaða hag Íslendingar hafa af aðild," segir Steingrímur og bætir við að Íslendingar séu væntanlega betur settir með þá samninga við Evrópusambandið, sem nú eru í gildi.
Hann segir að hagsmunir Íslendinga séu afar ríkir varðandi sjávarútveg og marga aðra hluti.
Í viðtalinu segir Steingrímur, að Efnahags- og myntbandalag Evrópu muni væntanlega standa af sér þá ágjöf sem nú eru en Portúgal er nú að bætast í hóp Grikklands og Írlands, sem þurfa á björgunaraðgerðum að halda vegna skuldavanda.
„Önnur stór hagkerfi hafa mikla hagsmuni af því, að Evrópu gangi vel og það yrði neikvætt fyrir Japan og Bandaríkin ef Evrópa lendir í erfiðleikum. Ég býst frekar við, að þeir muni fá þann stuðning, sem nauðsynlegur er."
Steingrímur ítrekar í viðtalinu, að íslenska krónan hafi þjónað hagsmunum Íslendinga vel og ekki sé ástæða til að skipta um gjaldmiðil. Segir hann að gengisfall krónunnar hafi ýtt undir útflutning og hafi stutt við íslenska hagkerfið í kreppunni.
Í viðtalinu er fjallað um Icesavemálið. Steingrímur segir afar ólíklegt, að Bretar og Hollendingar myndu beita neitunarvaldi gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu ef að því kæmi enda væri slíkt afar óskynsamlegt.
Þá segir hann, að það hafi ekki haft áhrif á stöðu Íslands á alþjóðlegum lánamarkaði þótt Íslendingar hafi hafnað Icesave-lögunum. Stjórnvöld stefni að því að sækja fé á slíka markaði á þessu ári.