Aðildarfélög BSRB hefja kjaraviðræður

Aðildarfélög Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eru að hefja samningsviðræður og munu þær taka mið af launahækkunum nýrra kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum, sem gerðir voru í gær.

Fram kemur á heimasíðu BSRB, að fulltrúar bandalagsins áttu á mánudag fund með forsætisráðherra og fjármálaráðherra og  afhentu þeim minnisblað um sameiginleg málefni aðildarfélaga sem hafi verið falin bandalaginu til úrlausnar við komandi kjarasamninga.

Hafi aðilar verið sammála um mikilvægi þess að ljúka skyldi við kjarasamninga við opinbera starfsmenn sem fyrst.

Þá átti framkvæmdanefnd BSRB fund með samninganefnd ríkisins í gær þar sem afhent var sama minnisblað og áhersluatriðin rædd. Í kjölfar kjarasamninga ASÍ og SA  í gærkvöldi voru aðildarfélög BSRB boðuð á fundi með viðsemjendum sínum.

Segir á vef BSRB, að ástæða þess að aðildarfélög BSRB hafi ekki fengið viðræður um launalið sinna kjarasamninga sé sú að viðsemjendur þeirra hafi viljað bíða eftir niðurstöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert