Kaupmáttur talinn aukast um 3-4%

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Vilmundur Jósefsson, formaður SA, innsigla …
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Vilmundur Jósefsson, formaður SA, innsigla samninga. mbl.is/Ómar

Kjarasamningar náðust á milli tólf verkalýðsfélaga, samninganefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Beinar launahækkanir upp á 4,25% verða 1. júní og auk þess verður greidd út 50.000 króna eingreiðsla þegar samningarnir hafa verið samþykktir í atkvæðagreiðslu.

Viðsemjendur eru almennt sáttir við samningana, en leggja áherslu á að nú hvíli það á stjórnvöldum að forsendur þeirra bresti ekki. Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir að gengið hafi verið lengra í hækkunum en til stóð. „En staðreyndin er sú að það er óskaplegur þrýstingur í þjóðfélaginu að vilja hærri laun.“

Þær raddir hafa heyrst að samningarnir geti haft verðbólguvaldandi áhrif. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, gefur lítið út á slíkt og segir að ástæða verðbólgunnar sé gengið. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambandsins, segist telja að nýju samningarnir feli í sér kaupmáttaraukningu upp á 3-4%.

„Meðalhækkun á launum er 12,6%. Ef við drögum síðan frá áætlaða verðbólgu, en við getum gefið okkur að hún verði 2,5-3% á samningstímanum, erum við að tala um 7,5-8% verðlagshækkanir á þessu þriggja ára tímabili. Eftir stendur kaupmáttaraukning upp á 3-4%,“ segir Ólafur Darri.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert