Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, kveðst í yfirlýsingu ekki hafa séð bókun sem nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins boðuðu vegna orða sem féllu milli Þráins Bertelssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
Hún segir að bókunin verði að sjálfsögðu færð í fundargerð nefndarinnar.
Fram kom m.a. á vefmiðlinum Eyjunni í dag að fundi Þingvallanefndar á fimmtudaginn var hafi lokið með því að Þráinn Bertelsson hafi kallað þær Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur „fasistapakk“.
Þær hafi þá lagt fram bókun þess efnis að nefndin sé ekki starfhæf nema Þráinn biðjist afsökunar á fáheyrðri framkomu sinni.
Yfirlýsing Álfheiðar er svohljóðandi:
„Yfirlýsing.
Núverandi Þingvallanefnd hefur á starfstíma sínum tekist að vinna að framgangi margra heillavænlegra mála sem varða framtíð þjóðgarðsins á Þingvöllum og hefur nefndin verið samstíga um allar stærstu ákvarðanir.
Fundur í Þingvallanefnd s.l. fimmtudag hefur að ósekju dregist inn í umræður um deilur og stóryrði sem fallið hafa milli þingmannanna Þráins Bertelssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þau ágreinings- og deiluefni snúa hins vegar ekki að starfsemi Þingvallanefndar og snerta ekki þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Þegar tilvitnuð orð Þráins féllu hafði fundi Þingvallanefndar þegar verið slitið. Meginefni fundarins var að hefja undirbúning að endanlegum frágangi kringum hliðargjá sem opnaðist í Almannagjá í lok mars, tryggja öryggi gesta þjóðgarðsins og hindra frekari eyðileggingu í gjánni. Á fundinn kom Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sem lýsti sinni sýn á því sem þarna gerðist. Umræður voru eins og venja er málefnalegar og leiddu til niðurstaðna sem allir nefndarmenn styðja, m.a. um að nýta þetta tækifæri til að auka fræðslugildi Þingvalla.
Á fundinum var einnig skipað í dómnefnd vegna Hugmyndaleitar meðal almennings um Þingvelli og þjóðgarðinn. Fram voru lagðir tveir listar og hlaut A-listi 4 atkvæði, B-listi 2 atkvæði en einn fulltrúi í nefndinni sat hjá. Það er því ekki rétt að greidd hafi verið atkvæði með eða á móti tilteknum einstaklingum á fundi nefndarinnar.
Undirrituð hefur ekki séð bókun sem boðuð var frá nefndarmönnum Sjálfstæðisflokksins í Þingvallanefnd en hún verður að sjálfsögðu færð í fundargerð nefndarinnar eins og venja stendur til.
Reykjavík 7. maí 2011
Álfheiður Ingadóttir.“