Mótmæla lægra kaupi Íslendinga

Ferjan Norræna.
Ferjan Norræna.

Fimmtíu starfsmenn ferjunnar Norrænu skrifa undir yfirlýsingu um að þeir séu á móti ráðningarsamningum sem valda því að Íslendingar eru með 29% lægri laun en aðrir starfsmenn borð fyrir jafn langan vinnudag og sömu störf og hinir.

Í bréfi sem mbl.is barst frá íslenskum skipverjum um borð segir að starfsmönnum um borð og félögum í Færeyska fiskimannafélaginu þyki brotið á rétti sínum. Einnig að Sjómannafélag Íslands sé að stuðla að því að gera Íslendinga að ódýru vinnuafli.

„Hingað til hafa allir Íslendingarnir haft sömu kjör og aðrir starfsmenn Smyril Line. Núna hafa verið teknar í gegn breytingar sem felast í því að Íslendingar hljóta ekki sömu kjör og starfsmenn af öðru þjóðerni,“ segir í bréfinu.

Þar kemur fram að til þessa hafi Smyril Line annast allar ráðningar en nýlega var færeyska starfsmannaleigan Shipping.fo fengin til að ráða nýja Íslendinga til fyrirtækisins. 

„Shipping.fo hefur sett fram nýjan kjarasamning sem brýtur á réttindum íslenskra starfsmanna samkvæmt íslenskum lögum. Sjómannafélag Íslands hefur samþykkt þennan samning. Kveður hann m.a. á um að við skulum lúta reglugerðum Sjómannafélags Íslands og samningum, borga færeyska skatta en öll önnur mánaðarleg gjöld til Íslands,“ segir í bréfinu.

Þeir segja enn fremur að þeir hljóti 29% launalækkun frá þeim launum sem þeir höfðu í fyrra og því sem kollegar þeirra hafa í laun.

Þá segja starfsmennirnir að þeim sé stillt upp við vegg. Ef þeir skrifi ekki undir nýja samninginn verði þeir reknir og aðrir sem ekki þekkja aðstæður ráðnir í staðinn.

Þá segja Íslendingarnir að þeir hafi ekki vitað að Shipping.fo væri starfsmannaleiga heldur töldu þeir sig vera ráðna í gegnum Smyril Line, útgerð skipsins.

Eins segja þeir að upplýsingar um laun hafi verið settar fram á misvísandi hátt. „Mánaðarlaun voru tilgreind en ekki sú staðreynd að frívíkur sem almennt eru borgaðar séu launalausar og laun séu því aðeins greidd að fullu annan hvorn mánuð. (Fyrirkomulagið hefur hingað til verið þannig að fólk hefur unnið sér inn einn frídag fyrir hvern unnin dag. S.s. fyrir hvern unninn mánuð hefur fólk unnið sér inn einn mánuð á launum í fríi.)“

Starfsmennirnir segja að þeir hafi komið um borð án þess að sjá þessa nýju samninga. Reyndir starfsmenn hafi unnið í allt að einn mánuð í þeirri trú að eldri samningur gilti. 

„Þegar fimm dagar höfðu liðið frá útborgunardegi og laun voru hvergi sjáanleg voru haldnir fundir til að upplýsa okkur öll um nýja samninginn. Þessir fundir upplýstu okkur um fátt og fengum við ekki einu sinni að sjá nýja samninginn í endanlegri mynd.“

Þá kemur fram í bréfinu að trúnaðarmanni frá Færeyska fiskimannafélaginu hafi verið neitað um setu á þessum fundum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir íslensku starfsmannanna.

„Persónulega finnst okkur að Smyril Line í samstarfi við Shipping.fo séu að nýta sér efnahagsástand Íslendinga, þar sem atvinnuleysi er um 9% og mörgum vantar enn vinnu. Við viljum gjarnan koma þessum skilaboðum áfram til þjóðarinnar og ef ekki verður spyrnt við fótum nú munu aðrir sjá sér gott færi og fúlgu fjár að græða á neyð okkar Íslendinga,“ segir orðrétt í bréfi Íslendinganna um borð í Norrænu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert