Mótmæla lægra kaupi Íslendinga

Ferjan Norræna.
Ferjan Norræna.

Fimm­tíu starfs­menn ferj­unn­ar Nor­rænu skrifa und­ir yf­ir­lýs­ingu um að þeir séu á móti ráðning­ar­samn­ing­um sem valda því að Íslend­ing­ar eru með 29% lægri laun en aðrir starfs­menn borð fyr­ir jafn lang­an vinnu­dag og sömu störf og hinir.

Í bréfi sem mbl.is barst frá ís­lensk­um skip­verj­um um borð seg­ir að starfs­mönn­um um borð og fé­lög­um í Fær­eyska fiski­manna­fé­lag­inu þyki brotið á rétti sín­um. Einnig að Sjó­manna­fé­lag Íslands sé að stuðla að því að gera Íslend­inga að ódýru vinnu­afli.

„Hingað til hafa all­ir Íslend­ing­arn­ir haft sömu kjör og aðrir starfs­menn Smyr­il Line. Núna hafa verið tekn­ar í gegn breyt­ing­ar sem fel­ast í því að Íslend­ing­ar hljóta ekki sömu kjör og starfs­menn af öðru þjóðerni,“ seg­ir í bréf­inu.

Þar kem­ur fram að til þessa hafi Smyr­il Line ann­ast all­ar ráðning­ar en ný­lega var fær­eyska starfs­manna­leig­an Shipp­ing.fo feng­in til að ráða nýja Íslend­inga til fyr­ir­tæk­is­ins. 

„Shipp­ing.fo hef­ur sett fram nýj­an kjara­samn­ing sem brýt­ur á rétt­ind­um ís­lenskra starfs­manna sam­kvæmt ís­lensk­um lög­um. Sjó­manna­fé­lag Íslands hef­ur samþykkt þenn­an samn­ing. Kveður hann m.a. á um að við skul­um lúta reglu­gerðum Sjó­manna­fé­lags Íslands og samn­ing­um, borga fær­eyska skatta en öll önn­ur mánaðarleg gjöld til Íslands,“ seg­ir í bréf­inu.

Þeir segja enn frem­ur að þeir hljóti 29% launa­lækk­un frá þeim laun­um sem þeir höfðu í fyrra og því sem koll­eg­ar þeirra hafa í laun.

Þá segja starfs­menn­irn­ir að þeim sé stillt upp við vegg. Ef þeir skrifi ekki und­ir nýja samn­ing­inn verði þeir rekn­ir og aðrir sem ekki þekkja aðstæður ráðnir í staðinn.

Þá segja Íslend­ing­arn­ir að þeir hafi ekki vitað að Shipp­ing.fo væri starfs­manna­leiga held­ur töldu þeir sig vera ráðna í gegn­um Smyr­il Line, út­gerð skips­ins.

Eins segja þeir að upp­lýs­ing­ar um laun hafi verið sett­ar fram á mis­vís­andi hátt. „Mánaðarlaun voru til­greind en ekki sú staðreynd að frí­vík­ur sem al­mennt eru borgaðar séu launa­laus­ar og laun séu því aðeins greidd að fullu ann­an hvorn mánuð. (Fyr­ir­komu­lagið hef­ur hingað til verið þannig að fólk hef­ur unnið sér inn einn frí­dag fyr­ir hvern unn­in dag. S.s. fyr­ir hvern unn­inn mánuð hef­ur fólk unnið sér inn einn mánuð á laun­um í fríi.)“

Starfs­menn­irn­ir segja að þeir hafi komið um borð án þess að sjá þessa nýju samn­inga. Reynd­ir starfs­menn hafi unnið í allt að einn mánuð í þeirri trú að eldri samn­ing­ur gilti. 

„Þegar fimm dag­ar höfðu liðið frá út­borg­un­ar­degi og laun voru hvergi sjá­an­leg voru haldn­ir fund­ir til að upp­lýsa okk­ur öll um nýja samn­ing­inn. Þess­ir fund­ir upp­lýstu okk­ur um fátt og feng­um við ekki einu sinni að sjá nýja samn­ing­inn í end­an­legri mynd.“

Þá kem­ur fram í bréf­inu að trúnaðar­manni frá Fær­eyska fiski­manna­fé­lag­inu hafi verið neitað um setu á þess­um fund­um þrátt fyr­ir ít­rekaðar beiðnir ís­lensku starfs­mann­anna.

„Per­sónu­lega finnst okk­ur að Smyr­il Line í sam­starfi við Shipp­ing.fo séu að nýta sér efna­hags­ástand Íslend­inga, þar sem at­vinnu­leysi er um 9% og mörg­um vant­ar enn vinnu. Við vilj­um gjarn­an koma þess­um skila­boðum áfram til þjóðar­inn­ar og ef ekki verður spyrnt við fót­um nú munu aðrir sjá sér gott færi og fúlgu fjár að græða á neyð okk­ar Íslend­inga,“ seg­ir orðrétt í bréfi Íslend­ing­anna um borð í Nor­rænu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka