Risavaxin skógarsög, Raggi Bjarna og gönguferðir í Öskjuhlíðinni undir leiðsögn verða meðal þess sem verður um að vera á Öskjuhlíðardeginum.
Hann verður haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í dag, laugardaginn 7. maí og verður hátíðin sett klukkan 11 í Sólinni, sem er aðalbygging Háskólans í Reykjavík.
Að sögn Jóhanns Hlíðar Harðarsonar, upplýsingafulltrúa Háskólans í Reykjavík, tekur síðan við fjölbreytt dagskrá. Þar má nefna siglingar um Fossvog, sjóbað í Nauthólsvík, rathlaupsleik fyrir fjölskylduna og gönguferðir um Öskjuhlíðina, en þar verða meðal annars skoðaðar stríðsminjar undir leiðsögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings.
Einnig verður starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar kynnt.
Á bílaplani HR verður stærðarinnar skógarsög sem breytir trjám í verðmæta nytjahluti og í aðalbyggingu HR sýna nemendur HR og Listaháskólans gagnvirk listaverk sem þeir hafa skapað í vetur.
Söngvarinn Ragnar Bjarnason skemmtir svo gestum í hádeginu í aðalbyggingu HR og fjögur ljóðskáld flytja ljóð sín í hlíðum Öskjuhlíðar í lok skipulagðra gönguferða.
Undirritað verður samkomulag um stofnun starfshóps sem ætlað er að móta samstarf Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Skógræktarfélags Íslands um útivistarsvæðið í Öskjuhlíð með það að markmiði að styrkja svæðið sem náttúruperlu, útivistar- og kennslusvæði.
Að undirritun lokinni heldur Jón Gnarr borgarstjóri sýnikennslu í því hvernig búa á til moltu.