Löngu tímabærar kjarabætur

Kjarasamningar ASÍ og SA voru undirritaðir á fimmtudaginn var.
Kjarasamningar ASÍ og SA voru undirritaðir á fimmtudaginn var. mbl.is/Ómar

Það er löngu tímabært að þeir sem eru á lægstu laununum og eins á bótum fái kjarabætur, að mati Helga Hjörvar alþingismanns. Þetta kom fram í umræðu um nýgerða kjarasamninga í Silfri Egils í dag.

Þór Saari alþingismaður sagði að ályktun sem samþykkt var á fundi Hreyfingarinnar á fimmtudagskvöld, þar sem fólk var hvatt til að fella nýgerða kjarasamninga,  hafi verið að tillögu Ragnars Þórs Ingólfssonar, stjórnarmanns í VR. Þór sagði að kjarasamningarnir séu hluti af ákveðnu leikriti til þess að viðhalda ímynduðum stöðugleika.

Lilja Mósesdóttir alþingismaður kvaðst hafa orðið hissa á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hún nefndi að fara  ætti í fjárfestingar sem virtust eiga að koma úr ríkissjóði en á sama tíma liggi fullt af peningum dauðum inni á bankabókum.

Hún sagðist hafa átt von á að ríkisstjórnin fengi Seðlabankann til liðs við sig við lækkun vaxtastigsins.  Vaxtastigið sé nú neikvætt í mörgum löndum í kringum okkur og ólíklegt að fjármagn leiti framhjá gjaldeyrishöftum héðan í neikvæða raunvexti annars staðar.

Illugi Gunnarsson, alþingismaður í leyfi, sagði að til þess að umsamin kauphækkun verði að kaupmáttaraukningu þurfi hagvöxtur næstu árin að vera rúmlega 4% á ári. Hann sagði það vera nokkuð fjarri þeim spám sem liggja fyrir frá Seðlabanka og fleirum. Þá sagði Illugi m.a. að skattahækkanir á almenning séu óviðunandi nú.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert