Samkomulag fljótlega eftir helgi

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson SteinarH

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að væntanlega muni félagið ganga frá kjarasamningi við vinnuveitendur fljótlega eftir helgi. VLFA og Framsýn í Þingeyjarsýslu, eru einu félögin á almennum vinnumarkaði sem hafa ekki lokið gerð kjarasamninga.

„Við erum að fara yfir þetta, atriði fyrir atriði og væntanlega náum við að ljúka þessu núna fljótlega eftir helgi,“ segir Vilhjálmur, sem býst við því að samkomulagið verði í anda samkomulagsins sem gengið var frá í síðustu viku. Vilhjálmur segir stöðu félagsins í samningaviðræðunum ekki sterka í ljósi þess að langflest félög hafi þegar samið. „Það er ekki mikil staða hjá þrjú þúsund manna stéttarfélagi þegar 99% af hreyfingunni eru búin að ganga frá samningi.“

Á vefsíðu VLFA er fjallað um bókun ASÍ og SA um sameiginlega launastefnu þeirra. Bókunin hljóðar þannig:
„Almennar launahækkanir verða samtals 11,40% á samningstímanum. Sérstök hækkun kauptaxta er láglaunaaðgerð sem hækkar launakostnað misjafnlega eftir því hve margir taka laun skv. kauptöxtum. Framangreind niðurstaða kjarasamninga felur í sér að mótuð hefur verið sameiginleg og samræmd launastefna gagnvart þeim fjölmörgu samningum sem enn eru ógerðir á samningssviði aðila. Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að framfylgja framangreindri launastefnu í framhaldinu“

Vilhjálmur segir bókunina stórmerkilega. „Þessi bókun er stórmerkileg, vegna þess að aðildarfélög ASÍ eiga eftir að ganga frá fullt af sérkjarasamningum. Til dæmis á Hlíf í Hafnarfirði eftir að ganga frá samningi við Ísal í Straumsvík. Við eigum eftir að ganga frá samningi við Norðurál og Klafa. Það er fullt af svona samningum út og suður. Þessi grein kveður á um það að menn skuldbindi sig til að ganga frá sömu launahækkunum og var gert á hinum almenna vinnumarkaði. Ég hef ætíð sagt það að fyrirtæki eins og álfyrirtækin eigi að koma með meiri launahækkanir heldur en fyrirtæki sem eiga undir höggi að sækja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert