Á við önnur dómsmál

mbl.is/Ómar

Guðni Haraldsson, lögmaður slitastjórnar Kaupþings, segir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja fyrrverandi starfsmanna Kaupþings sé nokkurs konar prófmál. Niðurstaðan í dag eigi við flest önnur sambærileg mál sem slitastjórnin sé með í gangi.

Héraðsdómur rifti í dag yfirlýsingu forstjóra Kaupþings frá haustinu 2008 að persónuleg ábyrgð þáverandi starfsmanna af greiðslu lánasamninga vegna hlutabréfakaupa í bankanum yrði felld niður.

„Þetta er nokkurs konar prófmál. Það eru önnur mál sem bíða á hliðarlínunni,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.

Hann segir að slitastjórn Kaupþings sé með um 20 dómsmál nú þegar í gangi, en alls varði þetta um 60 fyrrum starfsmenn Kaupþings. Menn hafi hins vegar verið sammála með að bíða með önnur mál þar til niðurstaða lægi fyrir í dag.

Hann bendir á að slitastjórn bankans sé búin að semja við um það bil 35 manns sem bíða nú niðurstöðu þeirra dómsmála sem verða flutt á næstunni.

Haldið verði áfram með mál þeirra sem vilja ekki semja.

„Slitastjórnin bauð fyrrverandi starfsmönnum að greiða 65% af kröfunum og ná þannig samkomulagi,“ segir Guðni. Þetta hafi u.þ.b. 35 fyrrum starfsmenn þegið og muni hver og einn þeirra því greiða 65% þeirrar kröfu sem bankinn eigi á viðkomandi.

Guðni segir að ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að slitastjórn bankans eigi ekki þessa fjármuni þá muni fólkið fá endurgreitt. Vinni slitastjónin hins vegar málin muni krónurnar skila sér í búið.

Guðni ítrekar að fleiri mál séu í gangi. Í þessari viku og næstu verði málflutningur fyrir Héraðsdómi Reykjaness í öðrum málum slitastjórnarinnar gegn fyrrum starfsmönnum.

„Þegar niðurstaða þessara mála liggur fyrir þá sjá menn nokkurn veginn hvernig línan er og hvað hinir vilja þá gera,“ segir Guðni. Menn reikni hins vegar með því að einhverjir muni áfrýja til Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert