Afhendir aðeins eitt bréf

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar

Forsetaembættið mun aðeins afhenda fjölmiðlum eitt svarbréf forseta Íslands til forsætisráðuneytisins í tengslum við samskipti embættanna um tillögur þess efnis að forsetinn setji sér siðareglur. Önnur bréf verða ekki afhent.

Í umræddu svarbréfi forsetans til ráðuneytisins, sem er dagsett 29. júní 2010 segir að á „fundi forseta og forsætisráðherra þann 25. júní síðastliðinn kom fram að bréfið byggi á margháttuðum misskilningi og því séu ekki forsendur til að bregðast frekar við því.“

Mbl.is sendi forsetaembættinu fyrirspurn vegna málsins í dag og óskaði eftir því að fá afrit af bréfaskriftunum. 

Forsetaembættið segir að þetta sé eina bréfið um þetta efni sem farið hafi frá embætti forseta Íslands til forsætisráðuneytisins. Varðandi beiðni um bréf forsetans til forsætisráðherra dagsett 13. júlí 2010 hafi embætti forseta ákveðið að synja beiðni um afhendingu afrits af því bréfi.

„Ef orðið yrði við slíkri beiðni væri í fyrsta skipti af hálfu embættis forseta verið að skapa það fordæmi að afhenda fjölmiðlum tiltölulega nýleg bréf forseta til forsætisráðherra,“ segir í svarinu.

Fram hefur komið að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, taldi það óskiljanlegt hvers vegna forsætisráðuneytið væri að hafa afskipti af málum forsetaembættisins á síðasta ári vegna tillagna um að forsetaembættið setti sér siðareglur. En þetta kemur fram fram í svarbréfi forsætisráðuneytisins, sem er dagsett 15. júlí 2010, og fjölmiðlar hafa birt.

 Í svari forsetaembættisins til mbl.is kemur fram eftirfarandi rökstuðningur:

        „1. Embætti forseta telur mikilvægt að forseti og forsætisráðherra geti skipst á skoðunum, jafnt á fundum sem skriflega, án þess að slík skoðanaskipti berist jafnóðum til fjölmiðla. Gögn sem þessi eru að dómi embættisins fyllilega sambærileg við gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til „fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og skjala sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.“ Með því að binda gögn tengd ríkisráðsfundum trúnaði styður löggjafinn það sjónarmið að samskipti forseta og ríkisstjórnar skuli undanþegin upplýsingarétti enda má ætla að sá sem sér ástæðu til að slík ákvæði gildi um fundargerðir ríkisráðs sjái einnig ástæðu til að hið sama eigi við um bréfaskipti milli forseta og forsætisráðherra.

        2. Gögn frá ríkisstjórnarfundum eru sem fyrr sagði undanþegin upplýsingarétti, en það auðveldar ráðherrum að skiptast á skoðunum með frjálslegum hætti. Á sama hátt hafa þingmenn lokaða þingflokksfundi og þingnefndir halda almennt sína fundi fyrir luktum dyrum og þurfa ekki að sæta því að þeirra fundargerðir séu jafnóðum birtar í fjölmiðlum. Vandséð er hvers vegna forseti lýðveldisins ætti að hafa rýrari rétt en ráðherrar og þingmenn til að njóta trúnaðar um samskipti sín við forsætisráðherra.

        3. Ef þannig háttar til að forseti og forsætisráðherra eiga erfitt með að hittast á fundi til að ræða trúnaðarmál hafa þeir hingað til getað gripið til bréfaskrifta í staðinn. Ef sá möguleiki að nota bréfleg samskipti yrði úr sögunni vegna þess að fjölmiðlar eigi að hafa tafarlausan og óheftan aðgang að þeim þá er það án vafa til tjóns fyrir æðstu stjórn landsins og takmarkar möguleika hennar á að ráða ráðum sínum. Slíkt gæti skaðað hagsmuni lýðveldisins í framtíðinni.

        4. Embætti forseta Íslands veit ekki til þess að í neinu landi sé skylt að afhenda fjölmiðlum jafnóðum bréfasamskipti milli þjóðhöfðingja og forsætisráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka