Ár óttans hjá starfsmönnum Kaupþings

mbl.is/Ómar

Fyrrum lykilstarfsmaður Kaupþings sagði í vitnisburði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, að árið 2008 hafi verið ár óttans hjá þeim starfsmönnum bankans, sem tekið höfðu lán til hlutabréfakaupa.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag í málum, sem þrotabú Kaupþings höfðaði á hendur tveimur fyrrum starfsmönnum bankans, sem höfðu fengið lán til hlutafjárkaupa. Samkvæmt dómunum þurfa starfsmennirnir að greiða lánin að fullu.

Þórður Pálsson, sem var yfirmaður viðskiptaþróunar bankans, bar í öðru málinu, að lykilstarfsmenn bankans hefðu sýnt bankanum mikla hollustu. Á þá hafi verið lagt að selja ekki bréf sín. Á grundvelli handveðsyfirlýsinga hafi bankinn geymt bréf þeirra starfsmanna sem keyptu hlutabréf í bankanum. Hann sagðist ekki hafa lagt fram skriflega beiðni um sölu hlutabréfa í bankanum. Slíkt hefði verið í andstöðu við verklag í bankanum en lykilstarfsmönnum hafi ekki verið heimilt að selja bréfin.

Þórður sagðist ekki hafa litið á sig sem fruminnherja í bankanum og hann hafi ekki stöðugt búið yfir innherjaupplýsingum. Eftir útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafi honum fyrst orðið ljóst að einhverjir lykilstarfsmenn í bankanum hafi selt bréf sín.

Fram kom einnig í vitnisburði Helga Þórs Bergs, fyrrum framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar, að hann hefði fengið arð af hlutabréfaeign sinni á árunum 2005 til 2007. Sagðist hann hafa frétt af því að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, hafi fengið að setja hlutabréfaeign sína og lán tengd þeim í sérstakt einkahlutafélag.

Fram kom nýlega, að Eignarhaldsfélagið Hreiðar Már Sigurðsson ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið var stofnað til að halda utan um hlutabréfaeign Hreiðars Más í Kaupþingi og Existu. Hluturinn í Kaupþingi var metinn á tæplega 6,4 milljarða í árslok 2007, en hluturinn í Existu 120 milljónir. Þessar eignir eru nú verðlausar.

Í dómum héraðsdóms er m.a. vitnað til skýrslu PricewaterhouseCoopers   frá 1. desember 2010 varðandi lán til starfsmanna stefnanda vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Kemst skýrsluhöfundur að þeirri niðurstöðu að á árunum 2007 til 2008 hafi 42 starfsmenn, sem fengu lánafyrirgreiðslu vegna hlutabréfakaupa, í 94 tilvikum selt hlutabréf í bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert