Héraðsdómur Reykjavíkur hefur rift þeirri yfirlýsingu forstjóra Kaupþings frá haustinu 2008, að felld yrði niður persónulega ábyrgð þáverandi starfsmanna af greiðslu lánssamninga vegna hlutabréfakaupa í bankanum.
Dómurinn dæmdi í dag í tveimur málum, sem þrotabú Kaupþings höfðaði á hendur fyrrum starfsmönnum bankans vegna lána, sem þeir tóku vegna hlutabréfakaupa.
Var annar þeirra, Helgi Þór Bergs, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, dæmdur til að geiða Kaupþingi tæpar 642 milljónir króna en hinn, Þórður Pálsson, sem var yfirmaður viðskiptaþróunar Kaupþings, var dæmdur til að greiða tæpar 27 milljónir króna.
Í dómum héraðsdóms segir, að með yfirlýsingu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, þann 25. september 2008, hafi ábyrgð starfsmannanna á greiðslu fjárskuldbindinganna verið felld niður. Af því leiddi, að eign bankans rýrnaði með samsvarandi hætti en starfsmennirnir auðguðust í réttu hlutfalli við það.
Segir dómurinn, að með hliðsjón af þeirri niðurstöðu dómsins að þeim, sem tóku lánin, hafi ekki verið lofað algjöru skaðleysi af hlutabréfakaupum í Kaupþingi verði ekki litið á yfirlýsingu Hreiðars Más sem annað en gjöf í skilningi laga. Því fellst dómurinn á kröfu bankans um að rifta ráðstöfun bankans um að fella niður persónulega ábyrgð lántakendanna á greiðslu lánssamninganna.
Slitastjórn Kaupþings banka sendi fyrir réttu ári um 80 starfsmönnum gamla Kaupþings tilkynningu um riftun á niðurfellingu persónulegra ábyrgða vegna lána sem bankinn veitti þáverandi stjórnendum og lykilstarfsmönnum til hlutabréfakaupa í Kaupþingi.
Heildarfjárhæð lánanna var hátt í 32 milljarðar króna. Tæplega 15 milljarðar voru veittir að láni með persónulegri ábyrgð. Langstærsti hluti lánanna var veittur yfirstjórnendum bankans.
Sagði slitastjórnin, að um 20 fyrrum starfsmenn skulduðu bankanum tæp 90% heildarfjárhæðarinnar.