Fái varanlegt hæli á Íslandi

Mehdi Kavyan Poor handtekinn í húsi Rauða krossins á föstudag.
Mehdi Kavyan Poor handtekinn í húsi Rauða krossins á föstudag.

Samtökin No Borders í Reykjavík mótmæla meðferðinni á Mehdi Kavyan Poor. sem gerði tilraun til þess að kveikja í sér í höfuðstöðvum Rauða Kross Íslands í Reykjavík sl. föstudag, og krefjast þess að honum verði veitt varanlegt hæli á Íslandi.

No Borders gerir jafnframt alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning af málinu. Haldið hafi verið fram að hann hafi ráðist inn í hús Rauða Krossins en ekkert bendi til annars en að hann hafi gengið inn í það. Að halda því fram að Mehdi hafi valdið sprengihættu sé histerísk og villandi upphrópun.

„Hafi hætta skapast á skrifstofum Rauða Krossins er hún alfarið á ábyrgð ríkisvaldsins sem hefur búið til þær aðstæður sem urðu til þess að Mehdi greip til örþrifaráðs,“ segir jafnframt í fréttatilkynningu. „Í sjö ár hefur ríkisvaldið unnið að því að koma Mehdi í skilning um að hvorki hefðbundin umsóknarferli né friðsamlegar andmælaaðgerðir (svo sem hungurverkfall) muni hagga rasískri og skrifræðislegri stefnu þess. Íslenska ríkisvaldið hefur í tilviki Mehdi og fjölmargra annarra úr röðum flóttamanna gerst sekt um kerfisbundna valdníðslu, útlendingahatur, kúgun og lögbrot. Þetta sanna fjölmörg dæmi um flóttamenn sem ekki hafa verið kynnt réttindi sín við komuna til landins, mega sæta fangavist fyrir engar sakir eða eru fluttir úr landi áður en endanlegt svar við hælisumsóknum þeirra liggur fyrir.
 
No Borders í Reykjavík gagnrýnir jafnframt málflutning Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, sem hefur haldið því fram í fjölmiðlum að málið byggi á einhvers konar misskilningi af hálfu Mehdi. Við spyrjum: Hvaða misskilningi? Er það misskilningur að Mehdi hafi verið haldið í sjálfheldu í sjö ár, fastur í glufu innan kerfisins, fjarri fjölskyldu og vinum, í aðstæðum þar sem hann hefur skerta stjórn á eigin lífi og enga möguleika á að skipuleggja það fram í tímann? Er það misskilningur að langvarandi óvissa og stöðug yfirvofandi brottvísun úr landi skapi viðvarandi vanlíðan sem getur rekið fólk út í sjálfsmorð?
 
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, viðurkennir að sjö ár er langur tími þegar beðið er eftir úrlausn sinna mála. En að því sögðu tekur hún hins vegar í sama streng og Ögmundur og neitar því að mál Mehdi sé sá áfellisdómur yfir íslenskum stjórnvöldum sem það er.
 
Mehdi var yfirbugaður af hópi sérsveitarmanna og fangelsaður í kjölfar þess að örvænting hans um hvort hann fengi nokkurn tímann að njóta sjálfsagðs réttar síns til þess að vera og lifa sem manneskja, fá að vera til án þess að mega eiga von á að vera vísað úr landi þegar minnst varir, náði slíku hámarki að hann greip til þess óeigingjarna örþrifaráðs að reyna að myrða sjálfan sig á sársaukafullan en táknrænan hátt.“
  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka