Skólastarf Menntaskólans Hraðbrautar verður með eðlilegum hætti veturinn 2011-2012. Því verður tekið við umsóknum nýnema á fyrra námsár. Eigendur skólans ætla að ábyrgjast persónulega áframhaldandi rekstur skólans næsta skólaár.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hraðbraut.
„Þjónustusamningur mennta- og menningarmálaráðuneytis við Hraðbraut hefur verið framlengdur til miðs árs 2012. Samningurinn kveður einungis á um kaup ráðuneytisins á þjónustu skólans vegna nemenda á öðru ári en eigendur skólans munu ábyrgjast persónulega áframhaldandi rekstur skólans næsta skólaár bæði gagnvart nemendum sem þjónustusamningurinn tekur til og gagnvart þeim nýnemum sem verða teknir inn á fyrra námsár í haust,“ segir í tilkynningunni.