Íslenskir starfsmenn um borð í ferjunni Norrænu fá töluvert lægri laun fyrir vinnu sína á ferjunni en færeyskir samstarfsmenn þeirra. Að vonum gætir óánægju með þetta meðal Íslendinganna en kjaramuninn má rekja til lágs gengis íslenskrar krónu gagnvart danskri krónu og íslenskra kjarasamninga.
Telja Íslendingarnir sig niðurlægða með því að fá lægra kaup en samstarfsfólk sitt fyrir sömu vinnu.
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir að félaginu hafi verið stillt upp við vegg í málinu. Hefði ekki verið fallist á að kjör íslenskra starfsmanna færu eftir íslenskum kjarasamningum hefðu Íslendingum ekki boðist þessi störf. Frekar en að verða af störfunum var fallist á þetta skilyrði. Kjarasamningarnir sem um ræðir eru frá árinu 2008 og runnu út í nóvember í fyrra.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag greinir Rúna Vang Poulsen, framkvæmdastjóra Smyril Line, sem rekur Norrænu, og íslensku starfsmennina á um hvort Íslendingunum hafi verið gerð grein fyrir að íslensku samningarnir skyldu gilda áður en þeir hófu störf.