Leitað að manni á Esjunni

Maðurinn ætlaði að ganga frá Móskarðshnjúkum, sem sjást lengst til …
Maðurinn ætlaði að ganga frá Móskarðshnjúkum, sem sjást lengst til hægri, yfir Laufskörðin vinstra megin á myndinni og á Hábungu Esjunnar. Þorkell Þorkelsson

Leit er að hefjast að manni á Esjunni og í nágrenni. Göngumaður sem var á leið frá Móskarðshnjúkum inn á Hábungu og fór Laufskörðin hafði samband og lét vita að hann væri ekki viss um hvar hann væri staddur. 

Undanfarar og sérhæfðir leitarmenn úr öllum björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðir út til leitar. 

Þoka mun vera á svæðinu og slæmt skyggni. 

Uppfært kl. 18.30

Svohljóðandi fréttatilkynning kom frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu kl. 18.26:

„Fyrir nokkrum mínútum voru undanfarar og sérhæfðir leitarmenn úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar kallaðar út til leitar að manni í Esju.

Viðkomandi ætlaði að ganga á Móskarðshnjúka austast í Esju yfir Laufaskörð og þaðan á hábungu fjallsins en villtist á þeirri leið sinni. Hann er í símasambandi við björgunarmenn en er mjög þreyttur og smeykur.

Björgunarmenn munu fara að svæðinu bæði austan og vestan megin fjallsins þar sem ekki er vitað um staðsetningu mannsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert