Leit er að hefjast að manni á Esjunni og í nágrenni. Göngumaður sem var á leið frá Móskarðshnjúkum inn á Hábungu og fór Laufskörðin hafði samband og lét vita að hann væri ekki viss um hvar hann væri staddur.
Undanfarar og sérhæfðir leitarmenn úr öllum björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðir út til leitar.
Þoka mun vera á svæðinu og slæmt skyggni.
Uppfært kl. 18.30
Svohljóðandi fréttatilkynning kom frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu kl. 18.26:
„Fyrir nokkrum mínútum voru undanfarar og sérhæfðir leitarmenn úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar kallaðar út til leitar að manni í Esju.
Viðkomandi ætlaði að ganga á Móskarðshnjúka austast í Esju yfir Laufaskörð og þaðan á hábungu fjallsins en villtist á þeirri leið sinni. Hann er í símasambandi við björgunarmenn en er mjög þreyttur og smeykur.
Björgunarmenn munu fara að svæðinu bæði austan og vestan megin fjallsins þar sem ekki er vitað um staðsetningu mannsins.“