Taldi afskipti ráðuneytisins óskiljanleg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, taldi það óskiljanlegt hvers vegna forsætisráðuneytið væri að hafa afskipti af málum forsetaembættisins á síðasta ári vegna tillagna um að forsetaembættið setti sér siðareglur.

Þetta kemur fram í svarbréfi forsætisráðuneytisins, sem er dagsett 15. júlí 2010, og er það þriðja bréfið sem ráðuneytið sendi forsetanum vegna málsins. Þau hafa verið birt í heild sinni á Eyjunni.

Þar segir m.a.:

„Bréfið fól í sér beiðni um tilteknar upplýsingar en í því voru hvorki tilskipanir né „rakalaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis“ eins og þér haldið fram í bréfi yðar og er ástæða til þess að mótmæla þessari framsetningu af yðar hálfu.“

Þann 11. júní 2010 sendi forsætisráðuneytið forsetaembættinu bréf þar sem vísað er til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ráðuneytið telji rétt að óska eftir viðhorfum forsetaembættisins til þess hvernig staðið verði að því að setja reglur um hlutverk og verkefni forsetans og samskipti hans við önnur ríki og siðareglur forsetaembættisins.

Í bréfi ráðuneytisins frá 1. júlí er svo beiðnin svo ítrekuð. Þar segir m.a. að skilningur forsætisráðherra á fundi með forseta 25. júní 2010 sé annar en komi fram í svarbréfi forsetaembættisins. Þar hafi komið fram að forsetaembættið myndi koma sjónarmiðum sínum á framfæri með bréflegum hætti.

„Er því ítrekað erindi ráðuneytisins frá 11. júní síðastliðnum þar sem óskað er eftir viðhorfum forsetaembættisins til tillagna er það varða í viðauka 1 við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.“

Mbl.is hefur óskað eftir því að fá afrit af bréfum forsetaembættisins.

Stjórnarráðið við Lækjargötu.
Stjórnarráðið við Lækjargötu. mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert