Frumvörp um stjórn fiskveiða verða rædd á fundi ríkisstjórnar í dag. Líklegt er að hún afgreiði þau í dag eða síðar í vikunni. Þar er meðal annars kveðið á um hækkun veiðigjalds og að 30% þess fari til sjávarbyggða, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Þegar sjávarútvegsráðherra kynnti heildaraflamark þessa fiskveiðiárs síðasta sumar kom fram að áætlað væri að veiðigjald eða auðlindagjald skilaði hátt í þremur milljörðum í ríkissjóð á þessu fiskveiðiári.
Síðustu tæplega tvo mánuði hafa fjórir ráðherrar í ríkisstjórninni komið að vinnu við gerð frumvarps um skipan mála í fiskveiðistjórnun. Í nóvember var skipaður samstarfshópur sex þingmanna stjórnarflokkanna sem skilaði af sér minnisblöðum um málið í febrúar.
Vinnuhópar í ráðuneytinu unnu að afmörkuðum þáttum frá nóvember til febrúarmánaðar. Eftir það hófst vinna í ráðuneytinu að smíði frumvarps sem kynnt var í byrjun mars, samkvæmt heimildum blaðsins. Jafnframt funduðu starfsmenn ráðuneytis með þingmönnum og ráðherrum um málið.
Starfshópur ráðherranna lauk síðan störfum á Þingvöllum á sunnudag, eftir tæplega tveggja mánaða vinnu.