Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrar lýsir yfir áhyggjum aukinni neyslu ungmenna í bænum á kannabisefnum. Þetta kom fram á síðasta fundi ráðsins og einnig að áfram verði unnið að málinu.
Bæjarráð Akureyrar fékk á fund við sig nýverið aðstoðarskólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri, húsbónda heimavistar VMA og MA, og forvarnarfulltrúa beggja skóla til að ræða um aukna neyslu ungmenna á Akureyri á kannabisefnum.
Umræðan hefur verið hávær að undanförnu innan sveitarfélaga hér á landi, samhliða fræðslufundaröð sem fer fram um land allt undir yfirskriftinni Bara Gras?
Á fundi samfélags- og mannréttindaráðs Akureyrar kom einmitt fram að ráðið muni taka þátt í fundaráði með málþingi í lok mánaðarins. Er það ætlað foreldrum og markmiðið að fræða þá um skaðsemi kannabis auk þess að hjálpa þeim að leita sér upplýsinga.
Nýverið var haldinn fræðslufundur í Hafnarfirði þar sem kannabismálin voru til umræðu. Í máli forvarnafulltrúa bæjarins kom fram að hlutfall nemenda í 10. bekk sem notað hafa hass eða maríjúana þrisvar sinnum eða oftar hefur farið lækkandi undanfarin ár en virðist sem það sé aftur á uppleið, alla vega miðað við tölur fyrir síðasta ár.
Þá kom fram að ungmenni án atvinnu voru mun líklegri til þess að neyta kannabisefna en þau sem voru í námi eða vinnu.
Af málþinginu að ráða er ljóst að sannarlega hafi orðið aukning á neyslu maríjúana hjá ungu fólki. Spurningin er hins vegar hvernig bregðast skuli við og sporna við neyslunni.