Á ársfundi Veiðimálastofnunar fyrir helgi kom fram að ef frá eru taldar bleikjuveiðar í vötnum hafi samdráttur verið í bleikjuveiði síðasta áratug.
Guðni Guðbergsson fiskifræðingur segir fækkun bleikju hafa verið umtalsverða á sumum svæðum, einkum á Suðvesturlandi. Hann segir líklegt að bleikjuveiði verði áfram með minna móti í ám á þessum svæðum í sumar og að sumstaðar hafi bleikjustofnarnir orðið skert veiðiþol.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Guðni rétt að benda veiðiréttarhöfum á að gæta þess að ekki verði gengið um of á stofna bleikju og bregðast við með því að draga úr sókn til að viðhalda stærð hrygningarstofna.
Hann tók sem dæmi bleikjuveiðina í Hvítá í Borgarfirði. „Þar hefur orðið gríðarleg minnkun; mest var veiðin um 4.600 bleikjur á ári en í fyrra losaði aflinn ekki nema um 400 fiska,“ sagði hann. Annað dæmi um minnkandi bleikjuveiði á Vesturlandi er í Hítará, þar sem iðulega hefur verið gert út á bleikju á vorin, en þar veiddust einungis nokkrir fiskar í fyrra.