Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni að Íslendingum beri að standa skil á lágmarksinnstæðutryggingu vegna Icesave-reikninga Landsbankans, allt að 20 þúsund evrum á hvern reikning.
Hann hefur einnig sagt það ljóst að EFTA-dómstóllinn muni úrskurða Íslendingum í óhag, komi málið til kasta hans. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerir ummæli Sanderuds að umtalsefni í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku.
Í grein sinni segir Sigurður Sanderud, í ljósi ummæla sinna, líklega vanhæfan „til þess að skera úr þeim ágreiningi í Icesave-málinu sem nú er til meðferðar hjá þeirri eftirlitsstofnun sem hann er forseti fyrir enda má með réttu efast stórlega um óhlutdrægni hans í málinu“.
Sigurður Kári spyr hvers vegna þessum rökum sé ekki teflt fram í svarbréfi íslenskra stjórnvalda til ESA, sem afhent var í upphafi síðustu viku.