Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna þeirri kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að maður, sem játaði kynferðisbrot gegn konu sæti gæsluvarðhaldi.
Maðurinn var handtekinn fyrir rúmri viku vegna gruns um að hann hefði framið kynferðisbrot. Lögreglan krafðist þess að maðurinn sætti gæsluvarðhaldi til 6. júní en því höfnuðu dómstólarnir.
Kona, sem kærði, sagði að ókunnugur maður hefði komið að henni þar sem hún kraup á Austurvelli og var að pissa, og hafi fyrirvaralaust rekið fingur inn í endaþarm hennar. Hann hafi síðan hlegið og haft sig á brott. Konan reyndist við læknisskoðun vera með áverka.
Vitni sáu manninn hlaupa upp í bíl sinn. Maðurinn var handtekinn í iðnaðarhúsnæði síðar um nóttina og var þá fáklæddur en blautir skór og fatnaður fundust á staðnum.
Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa ákveðið að „káfa aðeins" á stúlkunni. Maðurinn sagðist aðspurður hafa „viðurstyggð“ á athæfi sínu og um „fíflaskap“ hafi verið að ræða og „eitthvað langt út fyrir það.“ Hann var ekki undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Maðurinn var upphaflega úrskurðaður í gæsluvarðhald í tæpa viku en þegar það rann út krafðist lögreglan gæsluvarðhalds í mánuð til viðbótar á þeirri forsendu að maðurinn væri grunaður um brot sem allt að 16 ára fangelsi lægi við. Um hafi verið að ræða grófa, fyrirvaralaust árás sé að ræða á almannafæri og hafi ásetningur mannsins staðið til þess að beita stúlkuna kynferðislegu ofbeldi.
Héraðsdómur segir hins vegar, að þegar litið sé til málsatvika sé hins vegar ekki fullnægt því skilyrði laga, að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að viðkomandi sæti gæsluvarðhaldi. Þessa niðurstöðu staðfesti Hæstiréttur.