Mótmæli í Grafarvogi í kvöld

Unga fólkið lætur ekki bjóða sér hvað sem er og …
Unga fólkið lætur ekki bjóða sér hvað sem er og vill fá að stunda sínar íþróttir í stað þess að hanga inni í tölvuleikjum. Mbl.is/Golli

Ungt fólk safnaðist saman á leikvelli einum við göturnar Garðhús og Veghús í Grafarvogi í kvöld og mótmælti. Borgin hefur látið taka niður körfuboltakörfu á leikvellinum, auk þess sem klifurkastali hefur verið fjarlægður og þökulagt yfir sandkassann. Uppátækið vakti mikla athygli í hverfinu í kvöld.

Um það bil 60 ungmenni komu saman og mótmæltu. Fólk í hverfinu sýndi stuðning og fylgdist með af svölum húsa sinna og kallaði stuðningsyfirlýsingar við unglingana. Þannig er mál með vexti að borgin lét í gærmorgun fjarlægja körfu sem staðið hefur á leikvellinum nánast síðan hverfið byggðist, eða í um tuttugu ár.

Talsmaður mótmælendanna, hinn nýtvítugi Ægir Þór Steinarsson, segir í samtali við mbl.is að fimmtíu til sextíu manns hafi tekið beinan þátt en enn fleiri hafi fylgst með. Flestir hvetji mótmælendur til dáða.

„Það að einhver einn íbúi í hverfinu geti hringt í Reykjavíkurborg og kvartað yfir því að það stafi of miklum hávaða af tveimur til þremur krökkum sem eru í körfubolta og fengið körfuna tekna niður, það skil ég ekki.“

Hann segir að krakkarnir í hverfinu vilji fá körfuna aftur og spyr hvað fólk vilji að unglingar og krakkar geri annars á kvöldin, hvort það vilji að þeir hangi í tölvunni. „Fólk sem kaupir sér íbúð nálægt leikvelli og vill svo ekki að bolta sé driplað þar, það er óskiljanlegt.“

Hann segir að markmiðið sé að fá körfuna setta aftur upp.  „Við viljum bara fá körfuna okkar aftur. Landsliðsmenn í körfubolta hafa byrjað að spila við þessa körfu. Leikmaðurinn Haukur Helgi Pálsson, sem spilar í Maryland núna, hann var til dæmis nánast daglega í körfubolta hérna einu sinni.

Ægir Þór segir einfaldlega mikinn áhuga á körfubolta í Fjölni og margir krakkar í hverfinu vilji leika sér við körfuna. Það eina sem sé eftir á leikvellinum séu tvær rólur og vegasalt.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert