Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, fór fram á það við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi í dag að hann nýti stöðu sína og grennslist fyrir um hvað gerðist þegar bátur með 72 afrískum flóttamönnum lenti í vandræðum á Miðjarðarhafinu með þeim afleiðingum að 61 flóttamaður lést úr hungri og þorsta.
Þórunn vitnaði í breska dagblaðið Guardian en þar kemur fram að báturinn hafi undir lok mánaðarins verið í grennd við herskip frá NATO. Tvær flugvélar hafi flogið frá skipinu og hringsólað yfir bátnum þar sem flóttafólkið hélt á hungruðum börnunum og veifaði. Vélarnar flugu í burtu og báturinn fjarlægðist herskipið án þess að þaðan bærist nokkur hjálp. Er talið að herskipið hafi verið Charles de Gaulle frá Frakklandi, en það hefur ekki fengist staðfest.
Þórunn sagði ónteitanlega dapurlegt að sömu hersveitir og eiga að bjarga almennum borgunum í Líbíu bjargi ekki því fólki sem á vegi þess verður á Miðjarðarhafinu. Hún spurði hvort utanríkisráðherra hefði frekari upplýsingar um málið.
Össur sagðist eingöngu hafa lesið sömu grein og Þórunn. Hann sagði að á þessari stundu hafnaði hann að trúa því að þetta hafi gerst með þeim hætti sem lýst er og ekki hafi verið staðfest að NATO hafi komið þar að. „Ég tel þetta ekki aðeins ósiðlegt heldur algjörlega óverjandi af hverjum sem er, og sérstaklega af NATO sem hefur tekið að sér að vernda öryggi borgara.“
Þórunn þakkaði svörin og hvatti utanríkisráðherra til að grennslast fyrir um það sanna i málinu. Hún minnti þá á, að Ísland beri ábyrgð sem aðilar að NATO.