Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um að hámarksrefsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi.
Í greinargerð með frumvarpinu segir, að sérstök áhersla hafi verið lögð á það að berjast gegn mansali á Íslandi. Í mars 2009 hafi ríkisstjórnin samþykkt aðgerðaáætlun gegn mansali og í byrjun nóvember sama ár var skipað sérfræði- og samhæfingarteymi um mansal sem m.a. hefur það hlutverk að tryggja yfirsýn og þekkingu á mansalsmálum og að þolendur mansals fái viðeigandi vernd og aðstoð.
Sakfellt var í fyrsta skipti fyrir mansal hér á landi í Hæstarétti í júní í fyrra. Þá voru fimm menn fundnir sekir fyrir hlutdeild í mansalsbroti gegn 19 ára stúlku sem beitt hafði verið ólögmætri nauðung og annarri ótilhlýðilegri meðferð í heimalandi sínu áður en hún kom til Íslands.
Talið var sannað að mennirnir hefðu hver með sínum hætti átt hlut í því að flytja stúlkuna hingað til lands eða á milli staða hérlendis og hýsa hana á ákveðnu tímabili. Var jafnframt talið sannað að stúlkan hefði verið flutt hingað til lands til að stunda vændi.
Sá mannanna, sem ríkastan þátt var talinn eiga í brotinu, var dæmdur til fimm ára fangelsisrefsingar en hinir til fjögurra ára fangelsisrefsingar.