Andri Árnason hrl., verjandi Geirs H. Haarde, sagði að svo virtist sem ákæra saksóknara Alþingis gegn Geir sé nánast algerlega í samræmi við ályktun Alþingis.
„Það er í raun enginn rökstuðningur í ákærunni. Maður hefði átt von á að það væri einhver rökstuðningur fyrir ákæruatriðum og tenging við gögn málsins, en það er rýrt. Maður hefur efasemdir um að þetta gangi svona,“ sagði Andri.
Hann sagði að saksóknari sé vissulega bundinn við ákæruatriðin hjá Alþingi. Ákæruatriðin í ályktuninni séu mjög opin og óljós. Þess vegna hefði hann átt von á því að sérstök áhersla yrði lögð á það í ákærunni að rökstyðja með hvaða hætti meint brot hefðu verið framin.
„Ég sé ekki í ákæruskjalinu að það séu gerðar neinar ráðstafanir til þess,“ sagði Andri. „Það virðast ekki vera gerðar neinar tilraunir til þess að skýra ákæruatrðin eða rökstyðja þau.“
Andri sagði þetta gefa tilefni tili að skoða enn frekar þörfina á að fá málinu vísað frá.