Fjárlaganefnd Alþingis telur skil sjálfseignarstofnanna á ársreikningum til Ríkisendurskoðunar óviðunandi og nauðsynlegt að bæta þau úrræði sem til staðar eru til að krefjast reikningsskilanna. Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar á skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjálfseignarstofnanir og sjóði.
Í álitinu segir, að í árslok 2009 hafi verið 708 virkir sjóðir og stofnanir sem skila eiga ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Á árinu voru staðfestar 19 nýjar skipulagsskrár og unnið var að því að leggja niður samtals níu sjóði og stofnanir sem talin eru óstarfhæf. Í lok apríl sl. höfðu 486 sjóðir eða stofnanir skilað ársreikningi fyrir rekstrarárið 2008.
Um miðjan mars 2010 sendi Ríkisendurskoðun áskorun til vörslumanna 220 sjóða og stofnana sem ekki höfðu skilað reikningum fyrir fleiri en eitt ár og í lok apríl 2010 hafði 121 af þeim skilað. Sex sjóðir sem staðfestir voru á árunum 2006 og 2007 hafa aldrei skilað ársreikningi. Bent er á að óvirkir sjóðir eru margir og ekki á valdi Ríkisendurskoðunar að leggja þá niður.
Fjárlaganefnd telur að hægt væri að efla úrræði sýslumanns og Ríkisendurskoðunar, en það er hlutverk sýslumanns að óska eftir við lögreglustjóra að hann taki í sínar vörslur skjöl og eignir sjóðs eða stofnunar ef reikningum og skýrslum er ekki skilað til Ríkisendurskoðunar á tilskildum tíma.
Þá telur fjárlaganefnd að nauðsynlegt sé að skilgreina sjálfseignarstofnun með skýrum hætti í lögum. Þar sem ekki er skylda að óska staðfestingar þegar sjálfseignarstofnun er sett á laggirnar má gera ráð fyrir að hér á landi séu starfandi sjóðir og sjálfseignarstofnanir sem settar hafa verið á laggirnar í fjárhagslegum tilgangi en lúta ekki opinberu eftirliti.
Fjárlaganefnd hyggst óska eftir tillögum frá innanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Ríkisendurskoðun og ríkisskattstjóra um með hvaða hætti sé eðlilegast að haga eftirliti með slíkum sjóðum og fækka óvirkum sjóðum.