Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir tveimur erlendum karlmönnum. Mennirnir höfðu verið á landinu í einn dag þegar þeir urðu uppvísir að þjófnaði.
Mennirnir voru handteknir í síðustu viku í verslun í Reykjavík grunaðir um þjófnað. Þeir neituðu sök en á myndbandsupptökum af atvikinu mátti sjá að mennirnir unnu saman að þjófnaðnum en þeir stálu sokkapörum sem kostuðu 3980 krónur.
Fram kom að mennirnir komu til landsins 1. maí og daginn etir urðu þeir uppvísir að því að stela snyrtivörum úr verslun að verðmæti 37 þúsund krónur.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu kom fram að mennirnir voru peningalausir og dvöldu saman í mjög litlu herbergi í Reykjavík. Lögreglan segir í greinargerð að þeir hafi enga atvinnu og enga fjármuni til að framfleyta sér hér á landi og því óljóst hvernig þeir ætli að framfleyta sér með lögmætum hætti. Þeir hafi engin sérstök tengsl við landið þótt annar segðist eiga bróður sem búi í Reykjavík.
Fram kemur einnig að lögreglan hafi óskað eftir því við Útlendingastofnun að mönnunum verði vísað úr landi. Var krafa um gæsluvarðhald lögð fram til að tryggja nærveru mannanna meðan verið sé að afgreiða málið.
Héraðsdómur segir hins vegar, að refsing, sem mennirnir hlytu fyrir fyrrgreinda þjófnaði væri aðeins sekt eða skilorðsbundin fangelsisrefsing. Því sé ekki heimilt að úrskurða þá í gæsluvarðhald en forsenda fyrir því er að brot, sem sakborningar eru grunaðir um, varði allt að 6 ára fangelsi.
Þá taldi dómurinn ekki heldur ástæðu til að úrskurða mennina í farbann þar sem lögregla hefði heimild samkvæmt lögum til að gera útlendingum að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.