„Þetta var stríðnin í Sjonna"

Vinir Sjonna á sviðinu í kvöld.
Vinir Sjonna á sviðinu í kvöld. INA FASSBENDER

Sigurvíman er nú allsráðandi í búðum Íslendinga í Dusseldorf í Þýskalandi, þar sem vinir Sjonna komust áfram með lagið Coming Home, eða Aftur heim eins og það heitir á íslensku.

Mbl.is náði tali af Matthíasi Matthíassyni, Matta Matt, rétt í þessu, en hann var þá rétt búinn að ná andanum eftir fagnaðarlætin. „Noregur var eftir, Tyrkland var eftir, og þjóðir sem eru áskriftarþjóðir að því að komast í úrslit. En við bara rústuðum þeim!" sagði Matti og kváðu þá við mikil fagnaðarlæti í kringum hann.

Hann segir að þeim hafi liðið frábærlega á sviðinu og verið í góðum fíling. Sjonni hafi verið með þeim í anda á sviðinu.

„Við bara negldum þetta. Þetta var mjög svo frábært! Það verður erfitt að fara að sofa alveg strax. Nú ætlum við í viðtöl við fullt af fjölmiðlum og svo ætlum við bara að vera saman og skemmta okkur," segir Matti um framhaldið.

Hann segir það hafa verið fullkomlega í takt við stríðnina í Sjonna, Sigurjóni Brink, höfundi lagsins sem lést í janúar síðastliðnum, að láta draga Íslendinga upp úr síðasta umslaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert