Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar fagnaði á fundi sínum í gær tillögu um að flytja verk Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberann, ofan af holtinu hjá Veðurstofu Íslands og niður í Austurstræti. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í nefndinni sátu hjá við atkvæðagreiðslu og bókuðu að vanda ætti betur til verksins.
Tillagan er komin frá umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar og áður höfðu skipulagsráð og umhverfis- og samgönguráð afgreitt málið. Virðist því fátt geta komið í veg fyrir að Vatnsberinn fái nýtt heimili í miðbænum.
Á fundinum í gær fagnaði menningar- og ferðamálaráð því að fá styttuna í miðbæinn þar sem henni var upphaflega ætlaður staður. Ekki voru gerðar athugasemdir við staðsetningu verksins en lögð áhersla á að verkið verði fært lengra frá götu og gengið verði þannig frá nánasta umhverfi verksins að það líti ekki út eins og vegatálmi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks létu bóka að þeir telji margt jákvætt við að flytja styttuna, svo sem meiri kynning á verkum Ásmundar Sveinssonar, það að sögulega liggi fyrir að styttan hafi upphaflega átt að standa á horni Bankastrætis og Lækjargötu, o.fl. Hins vegar þótti þeim þau gögn sem fyrir menningar- og ferðamálaráði liggja ekki gefa nógu greinagóða mynd af því hvernig styttan verður staðsett og hvernig skipulagi og umhverfi í kringum hana verður háttað. Mörgum spurningum sé því ósvarað.
Komið hefur fram að styttan eigi að vera sett niður til reynslu í eitt ár og að því loknu gefist tími til endurskoðunar. „Hins vegar telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að vanda eigi til verksins nú, vilja sjá betur útfærðar hugmyndir ekki síst vegna þess að oft er hætta á því að bráðabirgðaframkvæmdir standi mun lengur óbreyttar en til stóð í upphafi.“
Að lokum fagnaði Einar Örn Benediktsson, formaður menningar- og ferðamálaráðs, bókun Sjálfstæðiflokksins.