Fyrrverandi starfsmaður Landsbankann var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness til að endurgreiða slitastjórn bankans yfir 90 milljónir króna vegna kaupauka sem hann fékk í lok september árið 2008.
Slitastjórnin stefndi Jóni Þór Gunnarssyni, sem var forstöðumaður á fyrirtækjasviði, og krafðist þess að samkomulagi sem bankinn gerði við hann þann 24. september um greiðslu á kaupauka sem nam í heildina yfir 90 milljónum króna yrði rift.
Árið 2004 skrifaði Jón Þór undir kaupréttarsamning við bankann sem fól í sér rétt til að kaupa fimm milljón hluti í bankanum á genginu sjö. Var kaupaukinn eingreiðsla til að gera upp áunninn og óinnleystan kauprétt.
Féllst héraðsdómur á kröfu slitastjórnarinnar og dæmdi Jón Þór til að endurgreiða upphæðina, 89,1 milljón, auk dráttarvaxta.