„Við þekkjum þetta vandamál vel. Utanvegaakstur er náttúrlega algengt vandamál úti um allt land og við höfum reynt að láta lögregluna vita en það er ósköp lítið sem við getum gert, því þeir fara mjög hratt yfir á þessum mótorhjólum.“
Þetta segir Berglind Guðmundsdóttir, arkitekt á skrifstofu skipulags- og byggingarmála hjá Hafnarfjarðarbæ.
Göngufólk á útivistarsvæði í upplandi Hafnarfjarðar, við Helgafell ofan Kaldárbotna, gekk um helgina fram á tvo vélhjólamenn þar sem þeir voru í miðju kafi að drösla hjólum sínum í gegnum girðingu umhverfis vatnsverndarsvæði Hafnarfjarðar. Svæðið tilheyrir Reykjanesfólkvangi og er opið göngufólki en ekki vélknúnum ökutækjum auk þess sem akstur utan vega er að sjálfsögðu ólöglegur alls staðar.
„Við höfum aðeins rætt það að ráða landvörð í gæslu á náttúruverndarsvæðum bæjarins, bæði til þess að afstýra þessu vandamáli og eins gróðureldum og öðrum sem er verið að kveikja á þessum árstíma. Allt hraunið þarna í upplandinu er á hverfisvernduðu svæði og þarna erum við búin að friða mikið af óhreyfðum hraunum og náttúruvættum auk þess sem við þurfum að vernda vatnsbólið í Kaldárbotnum,“ segir Berglind.