Landsbankinn greiddi Halldóri J. Kristjánssyni, þáverandi bankastjóra bankans, samtals 330 milljónir króna í september og byrjun október árið 2008, skömmu áður en bankinn féll. Halldór endurgreiddi síðar 230 milljónir og bankinn krafðist þess einnig að greiðslu 100 milljóna lífeyrisgreiðslu yrði rift.
Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem í dag vísað frá riftunarkröfu bankans.
Rakið er í dómnum, að Halldór var ráðinn í starf bankastjóra Landsbanka Íslands í janúar 1999. Hann hugðist síðan hætta störfum hjá bankanum í september 2007 en bankaráð bankans óskaði eftir því að Halldór héldi áfram störfum í ljósi þeirra aðstæðna sem þá höfðu skapast á fjármálamörkuðum.
Þann 11. september 2008 var samþykkt sérstök bókun í kjaranefnd Landsbankans um lífeyrisrétt og breytingar á tilhögun kauprétta bankastjóra bankans. Í bókuninni er vísað til samkomulags frá miðju árinu 2007 um starfslok Halldórs hjá bankanum. Var formanni og varaformanni bankaráðsins falið að semja við Halldór um fjárhæðir og fyrirkomulag.
Þeir Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, þáverandi formaður og varaformaður bankaráðsins, sendu tveimur framkvæmdastjórum bankans minnisblað, dagsett 16. september 2008, þar sem óskað er eftir því að 100 milljónir króna yrðu greiddar þá þegar samkvæmt ákvörðun bankaráðsins inn á séreignarsparnað Halldórs hjá eignastýringasviði bankans. Þá skyldi hann einnig fá launagreiðslu, sem samsvaraði því að nettó greiðsla til ráðstöfunar verði 100 milljónir þegar skattar, gjöld og annað hefðu verið dregin frá.
Að auki átti Halldór að fá sams konar eingreiðslu launa í byrjun janúar 2009. Tekið var fram í minnisblaðinu að þessi ákvörðun kæmi í stað starfslokasamkomulags við Halldór frá 23. mars 2007.
Í dómi héraðsdóms segir, að fyrir liggi að 19. september 2008 voru lagðar 100 milljónir króna inn á fjárvörslureikning vegna séreignarlífeyrissparnaðarsjóðs Halldórs á grundvelli minnisblaðsins.
Sama dag voru lagðar 100 milljónir króna inn á bankareikning Halldórs en heildarlaunagreiðslan var 155,6 milljónir króna þegar búið var að reikna skatta.
Þá lagði bankinn 130 milljónir króna inn á bankareikning Halldórs þann 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin svokölluðu voru sett.
Halldór sagði upp störfum hjá Landsbanka Íslands þann 8. október 2008 eftir Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir og skipaði sérstaka skilanefnd yfir hann. Þann 13. nóvember 2008 endurgreiddi Halldór bankanum síðan 100 milljónir króna og samkvæmt ódagsettu minnisblaði Halldórs til framkvæmdastjóra hjá bankanum lýsti hann því yfir, að hann vildi falla frá launaþætti samkomulagsins frá 16. september 2008 „um annað en lífeyrisþátt“.
Í kjölfarið var gerð bakfærsla í bókhaldi bankans á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi af launafjárhæðinni. Þá voru fyrrgreindar 130 milljónir króna einnig endurgreiddar bankanum 27. nóvember 2008.
Slitastjórn Landsbankans tilkynnti Halldóri síðan í maí 2010, að rift hefði verið 100 milljóna króna greiðslu bankans inn á séreignarlífeyrissparnaðarreikning Halldórs. Krafðist bankinn endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar en því mótmælti Halldór. Nú hefur héraðsdómur vísað riftunarmáli, sem Landsbankinn höfðaði, frá.