Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins segir í umsögn um nýtt frumvarp um tóbaksvarnir, að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði framleiðslu á íslensku neftóbaki hætt.
Samkvæmt frumvarpinu, sem Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, lagði fram á Alþingi nýlega, verður bannað að flytja inn, framleiða og selja allt bragð- og lyktblandað reyklaust tóbak.
Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til upplýsinga frá ÁTVR um að engin sala hafi verið á lyktar- og bragðbættu reyklausu tóbaki á undanförnum árum og því því muni frumvarpið ekki hafa áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs.
En í umsögn ÁTVR um frumvarpið, sem send var Alþingi í apríl, segir að neftóbakið, sem fyrirtækið framleiðir fyrir íslenskan markað og hafi verið framleitt frá því fyrir stríð, innihaldi bæði lyktarefni og bragðefni. Framleiðslu og sölu á neftóbakinu verði því hætt ef frumvarpið verður óbreytt að lögum,
Þá segir ÁTVR, að miðað við texta frumvarpsins yrðu reyklausar sígarettur, sem tóbaksframleiðendur hafi verið að þróa, bannaðar á Íslandi.
Sala á neftóbaki hefur aukist mikið undanfarin ár hér á landi. ÁTVR segir, að árið 2001 hafi salan verið 10 tonn á árin en um 25 tonn á síðasta ári. Tóbaksgjald hafi einnig hækkað mikið og fyrir árið 2001 var það rúmlega 20 milljónir en tæplega 100 milljónir árið 2010.
ÁTVR segir, að leiða megi að því líkum að verulegur hluti tóbaksins sé notaður í munn en ekki nef. Þá sé neftóbakið bleytt upp, sett í sprautu og síðan sé því sprautað í munnholið. Einnig sé það sett í grisjur og svo í munninn.