Markmiðið að fækka umferðarslysum

Átakinu var hleypt af stokkunum hjá miðstöð ökukennslu á Kirkjusandi …
Átakinu var hleypt af stokkunum hjá miðstöð ökukennslu á Kirkjusandi í Reykjavík. Þar flutti forseti Íslands, innanríkis- og velferðarráðherra ávörp. mbl.is/Ómar

Herferðin áratugur aðgerða í umferðaröryggismálum er hafin en hún mun standa árin 2011 til 2020. Átakinu var formlega hleypt af stokkunum hjá miðstöð ökukennslu á Kirkjusandi í Reykjavík.

Fram kemur í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu að starfshópur á vegum ráðuneytisins og fleiri aðila hafi sett fram áætlun um fyrstu skref sem miði að því að herða á ýmsum umferðaröryggisaðgerðum, auka rannsóknir og hvetja til aukinnar vitundar um afleiðingar umferðarslysa.

Þá segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi lýst árin 2011 til 2020 áratug aðgerða í umferðaröryggismálum og hvetji aðildarlönd sín til að efla hvers kyns aðgerðir í því skyni að fækka banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni.

Herferðin hefst á sama tíma, 11. maí, í aðildarríkjum SÞ og er með henni stefnt að því að aðgerðir á landsvísu og í alþjóðlegu samstarfi skili þeim árangri að umferðarslysum fækki. Meginmarkmið verkefnisins er að með samstilltum aðgerðum fækki umferðarslysum í heiminum og verður úttekt gerð á átakinu og hverju það hefur skilað árið 2020.

Talið er að árlega farist um 1,3 milljónir manna í umferðarslysum á heimsvísu. Ef ekkert yrði að gert er talið líklegt að árið 2020 verði þessi tala komin upp í 1,9 milljónir. Um 90% þessara umferðarslysa verða í þróunarlöndunum. Talið er að um 1-3% af vergri þjóðarframleiðslu aðildarríkja SÞ fari í kostnað vegna umferðarslysa, sem nemur um 500 milljörðum dollara árlega.

Í morgun, þegar átakinu var formlega hleypt af stokkunum, fluttu forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávörp.

Fram kemur í tilkynningu að í máli velferðarráðherra hafi m.a. komið fram að umferðarslys séu mikið heilbrigðisvandamál. Á 37 árum frá 1973 til 2009 hafi  220 manns orðið fyrir mænuskaða í slysum hér á landi. Þar af 98 í umferðarslysum eða 44,5%. Helmingur þeirra var á aldrinum 4-30 ára, 40% 31-60 ára og 10% voru eldri en 60 ára.

Innanríkisráðherra lagði áherslu á þátttöku allra í verkefninu, ekki eingöngu opinberra yfirvalda. Ef allir leggðust á eitt væri ekki óraunhæft að ætla að í lok áratugarins hafi umferðarslysum hér á landi fækkað umtalsvert en takmarkið væri vitanlega að útrýma banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Á því léki enginn vafi – og núllsýn væri í undirbúningi.

Vefur innanríkisráðuneytisins.  

mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert