Utanríkisráðherra segir, að gera megi ráð fyrir að nettóútgjöld Ísland við aðild að Evrópusambandinu yrðu rúmlega 3 milljarðar króna á ári. Er það 1 milljarði meira en nettóútgjöld eru vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Þetta kemur fram í skýrslu, sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur lagt fram á Alþingi og þingið mun fjalla um á mánudag.
Segir í skýrslunni, að lagt hafi verið lauslegt mat á hvert framlag Íslands til sambandsins gæti orðið komi til aðildar, miðað við árið 2009 og þær framlagsreglur sem þá voru í gildi gagnvart aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB). Samkvæmt því mati megi ætla að framlag Íslands árið 2009 hefði verið tæpir 15 milljarðar króna eða 1,22% af þjóðartekjum það árið, hefði Ísland verið aðili að sambandinu.
Hafa verði í huga, að gera megi ráð fyrir að meginhluti fjárframlaga til sambandsins muni skila sér til baka í formi framlaga til landbúnaðar og til verkefna sem snúa að dreifbýlisþróun, atvinnu- og byggðaþróun og rannsóknum. Mat á raunkostnaði við aðild að ESB sé ýmsum vandkvæðum bundið, enda verði niðurstaða varðandi marga þætti á tekjuhliðinni ekki ljós fyrr en að loknum samningum.
Sé miðað við hlutfall Finna af þjóðartekjum megi gera ráð fyrir að nettóútgjöld Íslands við aðild yrðu rúmlega 3 milljarðar króna sé árið 2009 lagt til grundvallar.
Til samanburðar nemi nettóútgjöld Íslands vegna EES-samningsins um 2 milljörðum króna á ári. Framlög Íslands vegna EES-samningsins nema 3,5 milljörðum að frádregnum u.þ.b. 1,5 milljarði sem er sú upphæð sem hefur skilað sér til baka frá Evrópusambandinu, aðallega í formi rannsóknarstyrkja, á grundvelli EES-samningsins. Þannig myndu nettóútgjöld Íslands við aðild að ESB aukast um 1 milljarð sé miðað við að nettóútgjöld Íslands yrðu svipuð og hjá Finnum.