Skráð atvinnuleysi í apríl var 8,1%, en að meðaltali voru 13.262 manns atvinnulausir í apríl. Að sögn Vinnumálastofnunar fækkaði atvinnulausum um 495 að meðaltali frá mars eða um 0,5 prósentur en atvinnuleysi mældist þá 8,6%.
Í maí í fyrra var atvinnuleysi 8,3%, en 9% í apríl. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í maímánuði nú minnki og verði á bilinu 7,4%‐7,8%.
Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 384 að meðaltali en konum um 111. Atvinnulausum fækkaði um 247 á höfuðborgarsvæðinu og um 248 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 8,7% á höfuðborgarsvæðinu en 6,9% á landsbyggðinni. Mest var það á Suðurnesjum 13,6%, en minnst á Norðurlandi vestra 4,1%. Atvinnuleysið var 8,6% meðal karla og 7,4% meðal kvenna.
Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 8348 og fjölgar um 159 frá lokum mars og er um 59% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok apríl. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4837 í lok mars í 4801 í lok apríl.