Engin Icesave-innheimtubréf

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að Íslendingar hefðu aldrei fengið nein innheimtubréf frá Bretum og Hollendingum vegna Icesave-málsins. 

„Það er hið sérkennilega í málinu öllu saman," sagði Árni Páll. „Það eina sem íslensk stjórnvöld hafa fengið er þrýstingur í formi allskonar hótana og tafa á fyrirgreiðslu til Íslands í upphafi efnahagsáætlunarinnar en við höfum aldrei fengið formlegt kröfubréf þar sem óskað er eftir að við stöndum skil á einhverju. Málsvörn okkar byggir á þeirri einföldu staðreynd að eingin krafa hafi orðið til."

Árni Páll sagði í svari við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokks, að vel kæmi til greina að afnema formlega upphaflegu Icesave-lögin, sem samþykkt voru á Alþingi haustið 2009. Vigdís og aðrir þingmenn Framsóknarflokks hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að lögin verði afnumin.

„Ég held að við getum í þessum þingsal, nema ef til vill eitt, verið sammála um að þeir samningar sem þjóðin felldi nú, voru betri en samningurinn frá því í ágúst 2009. Ásmundur Einar Daðason greiddi atkvæði með þeim samningi en síðan gegn samningnum sem felldur var nú síðast í þjóðaratkvæðagreiðslu," sagði Árni Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert