Hjón á áttræðisaldri höfðu samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í morgun og sögðust hafa fundið umslag á útivistarsvæði í borginni. Í því voru nokkur hundruð þúsund krónur í peningum.
Auk peninganna var kvittun með nafni eigandans í umslaginu. Lögreglan segir, að peningarnir hafi verið sóttir til heiðurshjónanna og þaðan farið með þá á lögreglustöð.
Síðan var haft samband við eigandann, mann á miðjum aldri, og kom hann á lögreglustöð í framhaldinu. Hann var að vonum þakklátur og skildi eftir fundarlaun sem lögreglan færði hjónunum.