Ákveðið hefur verið að skrifstofa Norðurskautsráðsins verði í Tromsø í Noregi en einnig kom til greina að hún yrði í Reykjavík.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, segir við blaðið Nordlys í Tromsø, að þetta sé stór dagur fyrir borgina og mikil viðurkenning á því alþjóðlega rannsóknarstarfi, sem þar er unnið.
Hann segir, að það hafi alls ekki verið sjálfsagt að Tromsø yrði fyrir valinu. Íslendingar hafi haldið því fram, að skrifstofan ætti að vera í höfuðborg en sjálfur hafi hann talið að skrifstofan ætti að vera á heimskautasvæðinu og þá hafi Tromsø verið sjálfsagður staður.
Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins stendur nú yfir í Nuuk á Grænlandi. Sitja hann fulltrúar Bandaríkjanna, Kanada,
Rússlands, Noregs, Finnlands, Íslands, Svíþjóðar og Danmerkur sem fer
með utanríkismál fyrir hönd Grænlendinga.