Samþykkt var á ársfundi Stapa lífeyrissjóðs fyrir árið 2010 að lækka áunnin réttindi og þar með lífeyrisgreiðslur um 6%. Til þessa er gripið til að rétta af tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Þetta kemur fram á vef Vikudags.
Segir að í ársskýrslu Stapa komi fram að tryggingafræðileg afkoma sjóðsins hafi verið neikvæð á síðasta ári um 3 milljarða króna.
Fundurinn var haldinn í Mývatnssveit í gær.
„Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt í árslok 2010 er staða sjóðsins neikvæð um 11,7%, sem er yfir lögbundnum 10% mörkum. Í lögunum er þó tímabundin heimild til þess að munurinn megi vera allt að 15% án þess að gripið sé til ráðstafana. Það er þó mat stjórnar sjóðsins að óheppilegt sé að gera ekkert til að rétta af svo mikinn halla, enda sé ekki á vísan að róa að staðan batni í náinni framtíð. Því sé rétt að leggja til að réttindi verði færð niður um 6% og framtíðarávinnsla verði sett í jafnvægi. Er þá miðað við að sjóðurinn eigi fyrir um 95% af lífeyrisloforðum og geti vonandi með bættri ávöxtun náð að brúa það bil sem upp á vantar. Er það verkefni ársfundar að taka á þessari stöðu,“ segir í skýrslu stjórnar fyrir árið 2010.