„Plastpokaskilti“ verða tekin niður

Finna má þó nokkur skilti sem þetta í borginni, til …
Finna má þó nokkur skilti sem þetta í borginni, til að mynda í Skipholti og við Háaleitisbraut. Þetta er við lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Eflaust hafa margir rekið augun í umferðarskilti víða um Reykjavík, sem eru falin á bak við svarta ruslapoka.

Reykjavíkurborg setti skiltin upp fyrir nokkrum mánuðum þegar stóð til að lækka umferðarhraða við viðkomandi götur. Lögreglan, sem þarf að samþykkja tillögur borgarinnar svo þær öðlist gildi, hafnaði hraðabreytingunum. Því hefur nú verið ákveðið að taka skiltin aftur niður.

„Þetta er í ákveðinni biðstöðu og það stendur til, á meðan ekki er búið að greiða úr þessu, að þá verði skiltin tekin niður og síðan sett aftur upp þegar við höfum náð sátt í málinu,“ segir Stefán Agnar Finnsson, yfirverkfræðingur hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.

Ekki nóg að setja upp skilti

Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að lögreglan hafi haldið á lofti því sjónarmiði að ekki sé nóg að lækka hámarkshraða með nýjum umferðarskiltum og að taka verði tillit til þess hvaða hraði sé eðlilegur í viðkomandi götum.

„Til þess að ná raunverulegri hraðalækkun þarf meira til en að setja upp skilti. Það getur þurft að setja upp eftir atvikum þrengingar eða hraðahindranir meðal annars,“ segir Kristján Ólafur og bendir á að lögreglan rökstyðji þetta með mælingum sem hafi verið framkvæmdar á síðustu þremur árum.

„Það eina sem gerist er að brotahlutfallið hækkar og við erum ekki sáttir við það.“

Karl Sigurðsson, formaður umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar, segir að það komi sér á óvart að skiltin hafi verið sett upp áður en samþykki fékkst frá lögreglu.

„Það kemur mér á óvart. Fyrst þetta er háð samþykki lögreglunnar þá hefðum við kannski átt að bíða. Ég veit ekki hver rökin eru fyrir því að setja þau upp strax,“ segir Karl.

„Svo kemur líka töluvert á óvart að lögreglan skuli ekki hafa samþykkt þetta. Við erum að reyna lækka umferðarhraða í íbúðahverfum og okkur finnst það vera umferðaröryggismál að hraðinn lækki.“

Karl segir að málinu sé ekki lokið og að Reykjavíkurborg og lögreglan séu enn í viðræðum.

„Það er mikill kostnaður sem felst í því að breyta götu. Það er ekki eins mikill kostnaður sem felst í því að breyta skilti og vera með örlítið eftirlit með hraðanum,“ segir Karl sem er ósammála rökstuðningi lögreglu.

„Mér finnst svolítið undarlegt að sníða lögin að afbrotamönnunum til að fækka þeim. Mér fyndist eðlilegra að við settum reglurnar þannig að okkur þætti þær eðlilegar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert