Icelandair segir, að tilkynning ISAVIA um að aðeins verði heimilað neyðarflug um Keflavíkurflugvöll frá kl. 20 í dag til kl. 7 á morgun, vegna aðgerða flugumferðarstjóra, mun hafa töluverð áhrif á áætlunarflug félagsins næsta sólarhringinn.
Flugi FI-212 frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar í dag verður flýtt um 30 mínútur og verður brottför kl. 12:45. Þá verður flugi FI-213 frá Kaupmannahöfn í kvöld flýtt um 45 mínútur og verður brottför kl. 19 að staðartíma og mun sú vél lenda á Keflavíkurflugvelli kl. 20.
Flug FI-455 frá London í kvöld mun lenda á Akureyrarflugvelli kl. 22.50 og verða farþegar fluttir til Reykjavíkur með rútum.
Þá megi búast við því að eins til tveggja klukkustunda seinkun verði á öllu flugi Icelandair í fyrramálið vegna áðurnefndra takmarkana.
Viðskiptavinir Icelandair eru hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma því breytingar geta orðið með skömmum fyrirvara.
Í tilkynningu segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að vinnudeila ISAVIA og flugumferðastjóra sé Icelandair óviðkomandi en hún veldur félaginu og viðskiptavinum þess óþægindum og fjárhagstjóni.
„Við óttumst að þetta sé aðeins upphafið að frekari aðgerðum og skorum á deiluaðila að leysa úr ágreiningi sínum svo ekki komi til alvarlegra afleiðinga fyrir ferðaþjónustuna nú í upphafi sumars", segir Guðjón í tilkynningunni.