Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í vikunni, að um 1500 lítil og meðalstór fyrirtæki séu ekki með rekstrarhæfar forsendur og fari beint í þrot.
Verið var að fjalla um stöðu minni og meðalstórra fyrirtækja í umræðu utan dagskrár að ósk Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks.
Árni Páll sagði, að samkvæmt nýlegu yfirliti frá fjórum stærstu bönkunum væru um 6 þúsund fyrirtæki, sem skulduðu á bilinu 10–1000 milljónir en það voru viðmiðin sem svonefnd Bein braut nær til.
Af þessum um 6 þúsund fyrirtækjum teljist tæp 2 þúsund ekki í greiðsluvanda en 4 þúsund væru í vanda. Þar af sé gert ráð fyrir að vandi um 1 þúsund fyrirtækja leysist með Beinu brautinni, um 670 til viðbótar fái úrlausn með lengingu í lánum og 280 þar til viðbótar fái úrlausn með 25% lækkun á höfuðstól. Rúmlega 500 fyrirtæki séu enn í skoðun og úrlausn þeirra ekki ákveðin. Síðan væri gert ráð fyrir að rúmlega 1500 af þessum fyrirtækjum séu ekki með rekstrarhæfar forsendur og fari beint í þrot.
Einar sagði að það væru heilmikil og mjög alvarleg tíðindi og væri gríðarleg sóun í þjóðfélaginu þegar einn fjórði minni eða meðalstórra fyrirtækja stefndi lóðbeint í gjaldþrot.
Árni Páll sagði hins vegar, að í því fælist óhjákvæmileg aðlögun að nýjum veruleika.
„Við verðum að hafa burði til þess að hreinsa út það sem er ónýtt og byggja upp eitthvað nýtt sem á sér raunverulegar rekstrarforsendur. Fyrirtæki sem eiga sér ekki raunverulegar rekstrarforsendur eru engum til góðs. Þau halda góðu vinnuafli frá því að vinna annars staðar við verðmætaskapandi störf og við verðum að komast út úr stöðnuninni, við verðum að skapa ný störf," sagði hann.