1500 fyrirtæki stefna í þrot

Ögmundur Jónasson og Árni Páll Árnason á Alþingi.
Ögmundur Jónasson og Árni Páll Árnason á Alþingi. mbl.is/Ómar

Árni Páll Árna­son, efna­hags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í vik­unni, að um 1500 lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki séu ekki með rekstr­ar­hæf­ar for­send­ur og fari beint í þrot.

Verið var að fjalla um stöðu minni og meðal­stórra fyr­ir­tækja í umræðu utan dag­skrár að ósk Ein­ars K. Guðfinns­son­ar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokks.

Árni Páll sagði, að sam­kvæmt ný­legu yf­ir­liti frá fjór­um stærstu bönk­un­um væru um 6 þúsund fyr­ir­tæki, sem skulduðu á bil­inu 10–1000 millj­ón­ir en það voru viðmiðin sem svo­nefnd Bein braut nær til. 

Af þess­um um 6 þúsund fyr­ir­tækj­um telj­ist tæp 2 þúsund ekki í greiðslu­vanda en 4 þúsund væru í vanda. Þar af sé gert ráð fyr­ir að vandi um 1 þúsund fyr­ir­tækja leys­ist með Beinu braut­inni, um 670 til viðbót­ar fái úr­lausn með leng­ingu í lán­um og 280 þar til viðbót­ar fái úr­lausn með 25% lækk­un á höfuðstól. Rúm­lega 500 fyr­ir­tæki séu enn í skoðun og úr­lausn þeirra ekki ákveðin. Síðan væri gert ráð fyr­ir að rúm­lega 1500 af þess­um fyr­ir­tækj­um séu ekki með rekstr­ar­hæf­ar for­send­ur og fari beint í þrot.

Ein­ar sagði að það væru heil­mik­il og mjög al­var­leg tíðindi og væri gríðarleg sóun í þjóðfé­lag­inu þegar einn fjórði minni eða meðal­stórra fyr­ir­tækja stefndi lóðbeint í gjaldþrot. 

Árni Páll sagði hins veg­ar, að í því fæl­ist óhjá­kvæmi­leg aðlög­un að nýj­um veru­leika.

„Við verðum að hafa burði til þess að hreinsa út það sem er ónýtt og byggja upp eitt­hvað nýtt sem á sér raun­veru­leg­ar rekstr­ar­for­send­ur. Fyr­ir­tæki sem eiga sér ekki raun­veru­leg­ar rekstr­ar­for­send­ur eru eng­um til góðs. Þau halda góðu vinnu­afli frá því að vinna ann­ars staðar við verðmæta­skap­andi störf og við verðum að kom­ast út úr stöðnun­inni, við verðum að skapa ný störf," sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert