Íbúar þeirra átta landa sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu vita sáralítið um ráðið, segir í niðurstöðum könnunar á vegum fyrirtækisins Ekos Research.
Mest vissu menn um ráðið á Íslandi og í norðurhluta Kanada en þar hafði 61% þátttakenda heyrt um ráðið. Aðeins 21% þátttakenda í Rússlandi og 16% þeirra Bandaríkjamanna sem rætt var við, vissu um tilvist Norðurskautsráðsins.
Athyglisvert þykir að þegar spurt var um hvort hleypa ætti fleirum að borðinu, t.d. Kína eða Evrópusambandinu, voru flestir á móti þeirri hugmynd, sérstaklega í Kanada, á Íslandi og í Bandaríkjunum. Þar vildu færri en fjórðungur svarenda fjölga aðildarlöndum ráðsins.