Lögreglan fór í heldur óvanalegt útkall í austurbæ Reykjavíkur í nótt þegar ölvaður maður fór íbúðavillt og lagðist upp í rúm hjá nágranna sínum, á nærfötunum einum klæða. Tók dágóðan tíma að vekja hann og fá hann til að átta sig á að hann væri ekki staddur heima hjá sér.
Maðurinn hafði verið að skemmta sér og þegar hann fór að sofa, í réttri íbúð, var hann nokkuð ölvaður. Hann vaknaði skömmu síðar og í svefnrofunum ákvað hann að fara aðeins út á svalir sem eru sameiginlegar með samliggjandi íbúð. Maðurinn, sem var nýfluttur í íbúðina, ruglaðist síðan á svalahurðum og fór inn til nágrannans og lagðist upp í hjá honum.
Nágranninn vaknaði upp með andfælum og hringdi á lögregluna. Þegar hún mætti á staðinn tók það nokkurn tíma að vekja manninn og síðan fá hann til að átta sig á því sem hafði gerst.
Maðurinn fór yfir í sína íbúð en að sögn lögreglunnar ætlar hann að ræða við nágranna sinn í dag og biðjast afsökunar.