Þessa helgina stendur yfir sérstök opnunarhátíð tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Hátíðin hófst í gær með tónleikum í aðalsalnum, Eldborg. Í dag koma ýmsir tónlistarmenn fram í öllum sölum hússins og á morgun verður loks haldin barnahátíð.
En það eru ekki bara salirnir sem opna um helgina. Í Hörpu eru nefnilega tvær verslanir, tveir veitingastaðir og veisluþjónustufyrirtæki. Þetta eru verslanirnar Epal og 12 tónar, veitingastaðirnir Munnharpan og Kolabrautin og veisluþjónustufyrirtækið Hörpudiskurinn. Epal, 12 tónar og Munnharpan eru staðsett á jarðhæð hússins, en Kolabrautin er á fjórðu hæð.
Eigendur og verslunarstjórar voru önnum kafnir þegar mbl.is hitti þá í gær, enda aðeins fáar klukkustundir í að dyrnar að Hörpu yrðu opnaðar.