Íbúar á Sauðárkróki eru harmi slegnir eftir fregnir af láti ungrar konu á 21. aldursári. Unnusti konunnar var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. maí nk. en hann hefur játað að hafa ráðið henni bana.
Unga konan er fædd og uppalin á Sauðárkróki og segir Sigríður Gunnarsdóttir,
sóknarprestur á Sauðárkróki, að bæjarbúum sé brugðið, mikil sorg ríki og bærinn í raun hálflamaður. Auk þess hafi hún merkt mikla reiði meðal íbúa í garð fjölmiðla vegna þess hvernig þeir hafi fjallað um málið.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að rannsókn málsins gangi vel, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, og málsatvik að mestu ljós. Enn á maðurinn þó eftir að gangast undir geðrannsókn og beðið er niðurstöðu úr krufningu.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hugðist konan slíta sambandi þeirra og voru sambandsslitin til umræðu þegar maðurinn réðst á hana í Heiðmörk og veitti áverka
sem drógu hana til dauða.