Símaskráin nýtist sem 2 kg lóð

Guðrún María Guðmundsdóttir ritstjóri með nýju Símaskrána sem kemur út …
Guðrún María Guðmundsdóttir ritstjóri með nýju Símaskrána sem kemur út í dag. Þema hennar er hreysti og húmor.

Nokkuð umdeilt var í haust þegar tilkynnt var að Egill »Gillzenegger« Einarsson yrði meðhöfundur að símaskránni í ár og sitt sýndist hverjum. Guðrún María Guðmundsdóttir hefur verið ritstjóri símaskrárinnar síðan 2005. Hún var afskaplega ánægð með samstarfið við Egil en hann fékk Evrópumeistarana úr Gerplu til að vera með sér.

»Hann er með kápuna og tíu blaðsíður aftast þar sem eru æfingar með símaskránni. Egill og fimleikastelpurnar í Gerplu sýna hvernig nýta má símaskrána til að gera líkamsræktaræfingar og koma sér í form,« segir Guðrún María.

Símaskráin er um 2 kg að þyngd og ætti því að nýtast vel sem lóð. »Við erum ánægð með samstarfið við Egil, það gekk ofboðslega vel og útkoman varð eins og við lögðum upp með í haust,« segir Guðrún María.

En hvers vegna þetta þema, hreysti og húmor? »Hugleikur [Dagsson] var hjá okkur 2007 og 2008 með teiknimyndaseríu. Við lögðumst yfir það í haust hvað við ætluðum að gera í ár og þessi hugmynd kom upp og okkur fannst hún mjög skemmtileg. Það er alltaf verið að tala um að þjóðin sé að þyngjast og fólk vill vera heilbrigðara. Við veltum fyrir okkur hvað við gætum gert til að hjálpa fólki og símaskráin er mjög handhæg til að nota í æfingar.«

Má borða símaskrána

Sumir segja að það sé úrelt að gefa út símaskrá í pappírsformi, hvað finnst Guðrúnu Maríu um það? »Þessi umræða kemur alltaf upp öðru hvoru. Það má ekki bara horfa á þá sem vinna eingöngu í tölvum. Netið er vissulega víðast hvar en það er fullt af fólki sem enn notar prentið og fullt af fólki sem hefur ekki aðgang að tölvum í sínu daglega starfi. Það er líka lögbundin skylda okkar að gefa símaskrána út árlega.«

Símaskráin kom fyrst út árið 1905 og er nú prentuð í 150 þúsund eintökum. Guðrún María segir engar nýjungar í skránni í ár. »Nýjungarnar núna eru Egill og Gerpla. Það er ekkert annað nýtt en við tökum saman bæjar- og menningarhátíðir sem fara fram á árinu og eru framarlega í bókinni. Gulu síðurnar eru uppfullar af alls konar upplýsingum og kortin okkar eru alltaf vinsæl. Skráin er líka að fullu umhverfisvæn. Hún er í raun þannig að það má borða hana, límið og allt er 100% umhverfisvænt,« segir Guðrún María að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert